Um mig

Ég heiti Hulda Margrét og er stofnandi Leið að uppeldi.

Í mörg ár var ég leitandi, kunni ekki að hlusta á innsæið, hafði litla trú á sjálfri mér og vissi ekki alveg hvert mitt hlutverk væri almennt.  En svo varð ég óvænt þunguð og eignaðist frumburðinn 23ja ára gömul.  Eftir langa og erfiða meðgöngu, óánægju og tilfinnignasveiflur, fékk ég tilganginn í fangið með fæðingu dóttur minnar.  Eldri systir mín kom mér í kynni við RIE (Resources for Infant Educarers) og virðingarríkt uppeldi (e.respectful parenting) nokkrum mánuðum seinna og ég tengdi svo fast við það sem ég las, heyrði og horfði á að ég vissi að þetta væri eitthvað sem ég vildi læra meira af og fræða aðra um.  Það var ekki aftur snúið.

Ég var meira og minna heimavinnandi með stelpurnar okkar í fimm ár, eða þar til þær urðu 5 ára og 3ja ára.  Á þeim tíma byggði ég einnig upp Leið að uppeldi, las allar bækur sem ég komst í, kláraði grunnnám hjá RIE Insitute of America og bý nú svo vel að því að  vinna við það sem ég elska að gera; fræða foreldra um virðingarrík uppeldisfræði.

Í öllum asanum sem því fylgir að eignast börn gaf virðingarríkt uppeldi mér svo mörg tól til að stunda meðvitund í uppeldinu.  Það hjálpaði mér að leysa upp ákveðin æskusár, jafnvel þau sem heilinn hafði falið en líkaminn mundi eftir og mæta sjálfri mér með skilning og ást.  En það besta var að ég gat loksins sett sjálfa mig í fyrsta sæti, því ég áttaði mig á að hvernig ég kom fram við sjálfa mig myndi endurspeglast í foreldrahlutverkinu og að lokum í börnunum mínum.

Ég tala oft og mikið um foreldra-verkfæratöskuna sem við erfum en foreldrahlutverkið kemur ekki af sjálfu sér.  Í okkar eigin æsku eru foreldrar okkar óbeint að kenna okkur hvernig á að vera foreldri, hvernig á að koma fram við börn og sjálfan sig.  Ef við tökum ekki ákvörðun um að gramsa í þessari verkfæratösku þegar við verðum sjálf foreldrar (og helst fyrir það) þá munum við áfram nota ónýt, úreld og ofnotuð tól sem forfeður okkar notuðu.

Börn gera ekki það sem við segjum, þau gera það sem við gerum - og þess vegna er það mikilvægara en nokkuð annað að koma vel fram við bæði þau og okkur sjálf.

Þessi vegferð er opin öllum og ég skora á þig að koma með.