18. júlí, 2022
Mikilvægi þess að vera vel upplýst foreldri
Það eru ýmsir misskilningar sem koma upp þegar við erum ekki nógu vel upplýst. En þó að RIE fræðin sé að ryðja sér rúms á Íslandi þá er enn ekki komin opinberlega samþykkt RIE-fræðsla til Íslands. Þar af leiðandi fara mismunandi sögur af því "hvað má" og "hvað má ekki", hvernig skal tala við og um börn og sérstaklega hvernig mörk eru sett - eða ekki sett, eins og vill oft vera misskilningurinn.
Það er ekkert leyndarmál að orðið "nei" er hluti af tungumálinu okkar, og er meira að segja mjög mikilvægt orð... heil setning jafnvel! Hinsvegar, samkvæmt breskri rannsókn sem gerð var, heyrir 2-3ja ára gamalt barn orðið "nei" að meðaltali 400x á dag..... já, þú last rétt: 400x á dag!!
Orðið "nei" er því óhjákvæmilega eitt af fyrstu orðum margra barna og þó að orðið "nei" mikilvægt orð t.d. við að setja mörk, þá er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem umönnunaraðila að huga að því hvað kemur á undan orðinu og/eða á eftir því. Það er það sem RIE fræðin upplýsa þig um; góð samskipti og mikilvægi þess að setja börnum mörk með góðum orðaforða.
(Hægt að lesa nánar með því að smella hér)
Málörvun er ekki takmörkuð við kennslu
Málörvun er gríðarlega mikilvæg fyrir börnin okkar. Að hafa einhvern sem talar við mann, útskýrir, leiðir og aðstoðar er hluti af jafnvel grunnþörfum barnanna okkar. En málörvun gerist ekki aðeins þegar við bendum á hlut, segjum hvað hann heitir og byðjum barnið okkar að herma eftir okkur. Málörvun er þegar við t.d. segjum "þú ert að leika þér að taka blöðin af blóminu mínu, ég ætla að leyfa þér að leika með eitthvað annað". Þessi heila setning getur komið í stað þess einfalda "nei" sem við notum svo mikið. Þarna erum við ekki einungis að setja mörk, heldur erum við líka að gefa til kynna að við sjáum barnið og að það vilji leika sér að blóminu (viðurkenning á löngun/tilfinningu), bjóðum því svo annan kost og fylgjum því eftir með líkamlegum mörkum ef þarf.
Börn þurfa að fá að vita hvað þau mega gera í stað þess sem þau mega ekki gera. Við þurfum oft að grípa inn í með lausnarmiðaða hugsun, þar sem börnin okkar vilja gera hluti sem eru ekki í lagi. Ég vil ekki að barnið mitt rífi blöðin af blóminu en barnið má fara út í garð og leika í grasinu, ef ég sé að barnið mitt er að uppgötva gróður og blóm og vil styðja við þann lærdóm.
Önnur góð lausn við að setja mörk og stuðla að málörvun væri að taka barnið í fangið og sýna því hvernig þú vilt að plantan sé meðhöndluð, jafnvel hvernig hún er vökvuð og hvernig moldin umlykur rót hennar. Ef barnið heldur áfram að rífa í plöntuna er því boðinn annar leikur.
"Stundum þarf ég samt að segja nei... er það ekki?"
RIE hvetur þig ekki til að hætta að segja nei, það hvetur þig til að skoða afhverju þú notast við ákveðin orð og hvernig þú getur aukið gildi þeirra. Nei með útskýringu eða einföldum en skýrum mörkum er miklu áhrifaríkara í framhaldinu heldur en sjö nei í röð (nei, nei, nei......) og nokkur "ó-ó, má´iggi". Börn hafa þörf fyrir að við tölum við þau eins og hvern annan. Við notum auðvitað blíðari tón, sem er partur af eðli okkar þegar kemur að minni máttar, og styttri, einfaldari setningar og orð miðað við aldur barns, en að tala "venjulegt mannamál" við barnið er gæfuríkara en að tala eitthvert tilbúið ungbarnamál.
Börn eru heil og fær, eins og Emmi Pikler, forsprakki RIE vildi meina, og þau eiga skilið sömu virðingu og aðrir. Það felst í því virðing að nota fleiri orð en "nei" og "ó-ó" við barn, hversu ungt svo sem það er.
Ég hef fengið setningar eins og "stundum þarf ég samt að segja nei" og það er gott og gilt. Það sem er gott að leiða hugann að er hvað kemur á undan og hvað kemur á eftir nei-inu? Og hvert er notagildi orðsins "nei" ef barn hefur heyrt það uþb 400x á dag í mörg ár jafnvel?
Stundum, þegar börn eru t.d. komin í seinni bekki leikskóla, getur "nei" verið góð og gild setning. En þegar kemur að málörvun og virðingu við lítil börn er gott að nota fleiri orð en það til að gefa orðinu sjálfu gildi og samhengi.
Hér er góð regla að notast við meðvitund í tali og það er hægt að gera í hvaða sambandi sem er, ekki bara í garð barnanna okkar.
21. nóvember, 2022
26. júlí, 2022