Þekking á uppeldi og afleiðingum hefur stóraukist í gegnum árin. En eins og raun ber vitni hefur okkur mannkyninu ekki alltaf tekist að halda í við nýjustu tækni og vísindi.
Það er nefnilega þannig í virðingarríku uppeldi að við trúum því að til að barn læri að hegða sér þurfi það fyrirmyndir sem stunda lausnarmiðaða hugsun, tala um tilfinningar sínar, tala um langanir og óskir, setji sín eigin mörk og fleira í þeim dúr. En einhvernveginn viðgengst það ennþá að börn séu skömmuð og notast sé við mútur/hótanir til að aga þau þegar þau villast af leið.
Ímyndum okkur yfirmann sem skammar, hótar og mútar og ætlast þannig til að fá það besta út úr starfsfólkinu sínu. Af því að þetta er sett í samhengi við fullorðna einstaklinga þá sjáum við strax að þetta eru aðferðir sem eru alls ekki vænlegar til vinnings - en samt notum við þetta þegar kemur að börnum.
Þetta stafar ekki af því að við elskum ekki börnin okkar. Þvert á móti myndum við gera hvað sem er til að börnunum okkar farnist vel, en vandamálið er að við erum með úrelda verkfærakistu forfeðra okkar í höndunum og við gerum okkur jafnvel ekki grein fyrir því.
Uppeldið er ekki eitthvað sem "kemur bara", heldur er það samansafn af tólum sem foreldrar okkar og umönnunaraðilar notuðu þegar við vorum lítil, til að ala okkur upp. Foreldrar þeirra og umönnunaraðilar voru líka með þessi verkfæri og kannski fleiri til, en öll þessi verkfæri hafa miðast við þekkingu þess tíma. Og það er kannski ekkert leyndarmál lengur að sú þekking er að miklu leiti orðin verulega úreld og þjónar ekki þeim tilgangi sem við sækjumst eftir í dag.
Að breyta til er gjöf
Að endurskoða sitt eigið uppeldi og hvernig það endurspeglar uppeldisaðferðirnar þegar við erum sjálf orðin foreldrar er mikilvæg gjöf sem við getum gefið börnum okkar og barnabörnum. Þegar við ákveðum að endurskoða, gagnrýna og breyta til erum við meðvitað að taka út allskonar takmarkaða trú á börnum og uppeldi, sem mun búa til rými fyrir nýrri og bættari úrræði, foreldri OG barni í hag.
Virðingarríkt uppeldi er nefnilega samstarf foreldris og barns. Það er uppbygging sambands en ekki samansafn fyrirframákveðinna aðgerða. Börn eru nefnilega alls ekki öll eins þó þau fari oftar en ekki í gegnum ákveðin þroskastig á svipuðum tíma lífs síns.
Að gefa refsingar, mútur og skammir upp á bátinn er ferli og gerist ekki allt á einum degi. Það mun jafnvel fylgja okkur út okkar líf, en ef við hugsum um kynslóðirnar sem á eftir koma, þá vonumst við til að það verði þeim eðlislægara að notast ekki við þessar aðferðir, heldur samtal, virðingu og að aðstoða börn við að ganga vel.
Við lærum best þegar okkur líður best...
og það gera börnin okkar líka! Sjáðu til - að skamma barn elur af sér frekari skömm, og hver fékk okkur til að trúa því að "til að barn læri að haga sér þarf því fyrst að líða illa". Þegar við skömmum börn, mútum þeim og hótum, erum við að grafa undan trausti þeirra til okkar. Við erum þeirra fyrstu sambönd og því er til mikils að vinna ef við erum í reglulegri endurskoðun og endurmati á aðferðum okkar, hegðun og framkomu sem foreldrar og leiðtogar.
Við eigum örugglega öll eftir að skamma börnin okkar aftur og aftur þó að við séum farin að átta okkur á afleiðingum þess. En af því að þú ert nú að stíga enn betur inn í meðvitund og hugsar meira um þessa hluti þá fækkar þeim skiptum sem þú skammar OG þau skipti sem þú biður barnið þitt afsökunar á framkomu þinni í garð þess aukast. Og þar er nefnilega heilunin - hún er í afsökunarbeiðninni sem við fæst fengum í æsku. Með því að skamma erum við ekki að gera barninu okkar gott, en þegar þeim skiptum fækkar OG við erum farin að bæta við lagfæringu (fyrirgefningin) þá erum við ósjálfrátt að sýna barninu okkar hvernig framkoma er í lagi og hvernig framkoma er ekki í lagi.
Þetta er vegferð, ekki lokaniðurstaða
Það er mikilvægt að við, sem umönnunaraðilar, áttum okkur á að það tekur tíma að vinda ofan af hlutum sem hefur tekið tíma að búa til. Ef við erum þrítug með okkar fyrsta barn og við erum að átta okkur á hvernig okkar eigin æska var, hvernig skammir, hótanir og mútur voru partur af uppeldinu, þá mun það taka okkur tíma að draga úr því og bæta við betri aðferðum í staðin. Þess vegna er einnig mikilvægt að við sem foreldrar gefum okkur rými til að gera mistök. Um leið og við erum farin að viðurkenna mistök okkar og gefa okkur rými til að sitja með tilfinningunum sem koma upp erum við orðin fyrirmyndin fyrir börnin okkar að því hvernig hægt er að vinna úr allskonar erfiðleikum.
Það er til mikils að vinna, verum breytingin sem við viljum sjá og gerum þetta saman.
Agi er undirstaða velgengni og vellíðunar og er eitthvað sem við ættum að setja ríka áherslu á að innleiða í uppeldinu. En það er ekki sama hvernig það er gert. Gamlar úreldar aðferðir þurfa nú að víkja fyrir bættari aðgerðum og virðingarríkt uppeldi hjálpar við það.