Börnin okkar gera ekki endilega það sem við segjum, en þau gera vissulega það sem við gerum. Þar af leiðandi er það “að aga börn” í raun orðin úreld hugsun.
Í virðingarríku uppeldi tölum við frekar um “innleiðingu aga” vegna þess að við, sem fullorðnir aðilar með fullþroskaðan heila, tökum að okkur að vera fyrirmynd þess sem við viljum fyrir börnin okkar - og þar á meðal er sjálfsagi.
Nútímaþekking hefur gert okkur deginum ljósara hversu mikinn andlegan stuðning börn þurfa, alveg fram yfir unglingsárin. Þegar við erum farin að halda að þau séu nógu stór til að taka góðar ákvarðanir, þá getum við hnippt í okkur sjálf og minnt okkur á að það á alls ekki alltaf við. Framheili okkar, sem segir til um afleiðingar gjörða okkar, er ekki fullþroskaður fyrr en eftir 25 ára aldur og hann byrjar ekki að þroskast almennilega fyrr en um 18 ára aldru! Sem þýðir að við getum verið að taka mjög skrítnar ákvarðanir, sem hafa ekki endilega góðar og uppbyggjandi afleiðingar, fram á þrítugsaldur (og auðvitað eftir það líka en sjaldnar).
Að vera fyrirmynd þess að vera agaður
Þetta er þekking sem hjálpar okkur að skilja börnin okkar betur, en einnig okkur sjálf. Það er miklu mikilvægara að við séum fyrirmyndir þess að vera öguð frekar en að við séum "að aga börnin okkar" því gjörðir eru miklu áhrifaríkari en orð. En það sem er einnig áhugavert við góðan aga er að hann stiður við almenna velgengni og vellíðan í daglegu lífi. Í hugtakinu agi felst ýmislegt sem við kannski höfum ekki áttað okkur á að styðji við þessa velgengni og góðu líðan:
að elska sjálfa/n sig þrátt fyrir mistök
að huga vel að sjálfinu (líkamleg OG andleg heilsa)
að styðjast við lausnarmiðaða hugsun
opinn hugur og gagnrýn hugsun
að taka fólki eins og það er
að setja sín eigin mörk og viðhalda þeim
Agað foreldri sem notast við virðingarríkt uppeldi er t.d. foreldri sem getur viðurkennt mistök, beðist afsökunar, notast við skilning frekar en dóm, getur fyrirgefið og gefur sér tíma til að endurskoða eigin viðbrögð og upplifanir í garð barnanna sinna (og annarra).
Breyttur hugsunarháttur gagnvart hugtakinu "agi"
Í virðingarríku uppeldi yfirgefum við þá hugmynd að agi þýði að sitja stilltur, þegja, hlusta og bíða. Við horfum til lengri tíma. Markmiðið er að agi komi innanfrá og sé samofinn innsæinu.
Að leggja mikið upp úr aga og heilbrigðum leiðum til að innleiða hann er vænlegt til vinnings. Ekki bara til að auðvelda okkur foreldrahlutverkið í heildina, heldur til að börnunum okkar líði og farnist vel. Ef barnið hlýtur góðan innri aga þá getum við farið sátt frá borði og treyst því að börnin okkar munu getað tekist á við hin ýmsu verkefni lífsins, bæði stór og smá.
Þekking á uppeldi og afleiðingum hefur stóraukist í gegnum árin. En eins og raun ber vitni hefur okkur mannkyninu ekki alltaf tekist að halda í við nýjustu tækni og vísindi.